6.6.2009 | 15:01
Hér er hátíð sjómanna í fullum gangi. Eyjarnar skarta sínu fegursta þeim til heiðurs.
- Örstutt hugleiðing frá Hönnu Birnu núverandi ritara F.F. Hún tók sæti á Alþingi 4. feb.2008 fyrir Grétar Mar.
Kemur hún inn á lífið sem sjómannskonur lifðu og lifa enn í dag, með eiginmenn og oft syni á sjó. Í öllum veðrum sækja þeir fram og koma með björg í bú, hljóðir um erfiðið en stoltir og bera höfuðið hátt, enda undirstaða þess að hér geti þrifist blómlegur sjávarútvegur.
Sjómanns - og stjórnmálakona
Hanna Birna ritari FF. |
Reykjavíkurmærin.
Ég þekkti nú lítið til sjómennsku á þeim tíma en hafði ofurtrú á mínum manni sem var í kennaranámi þá, en sjómennskan varð huga hans yfirsterkari. Hér í Vestmannaeyjum lærði ég að vinna fisk en gat nú reyndar aldrei flakað vel. Var alls ekki með góða nýtingu og ég fékk að heyra það frá Einari heitnum Hannessyni verkstjóra þeim mikla öðlingi sem er saknað af mörgum. Ég saltaði síld, pakkaði loðnu og loðnuhrognum. Staflaði saltfiskstæðum í Sælahúsinu og gæfa mín gegnum árin var að með mér voru ávallt afskaplega skemmtilegir og hjálplegir vinnufélagar.
Heima var ég að reyta lunda og hamfletta. Verka fýlinn og salta hann niður í tunnu með yfirumsjón og tilsögn tengdaforeldra minna Óla heitins og Önnu Svölu í Suðurgarði. Einnig skar ég af netum heima í bílskúr. Það hefur fylgt mér æ síðan, hugsunin um ráðdeildina, vinnusemina og að gera mikið úr litlu sem foreldrar og tengdaforeldrar mínir kenndu mér. Þegar tími var til æfði ég og tók þátt í starfi Samkórs Vestmannaeyja og var með í fyrstu plötuútgáfu kórsins. Tróð upp á leiksviði með Leikfélagi Vestmannaeyja og spilaði bridge, reyndar ekki mjög góð en var með.
Skin og skúrir
En lífið var ekki bara rómantískt Eyjalíf, í lífinu hjá mér skiptust á skin og skúrir eins og svo mörgum. Þegar á bjátar er mikilvægt að hafa trú. Eins og fyrr segir þekkti ég lítið til sjómennsku þegar ég ákvað að gerast sjómannskona. En fljótlega tók ég þá ákvörðun að hræðast ekki sjóinn og hafa þá trú númer eitt að maðurinn minn kæmi ávallt heim eftir hvern róður.
Öðruvísi hefði ég ekki getað sinnt þremur börnum, unnið mína vinnu og sinnt mínum áhugamálum. Að lifa lífinu hrædd gengur ekki til lengdar. Sem betur fer hefur hafið verið mér og mínum vinveitt þó að því miður hafa ekki allir verið það lánsamir í kringum okkur.
Hringing síðla mætur.
Síðla nætur í marsmánuði 1975 vaknaði ég við símhringingu sem er mér afar minnisstæð. Addi Óli var þá stýrimaður á Ísleifi Ve. og í símanum var Leifur Ársælsson stórútgerðarmaður er gerði Ísleif út.,, Hanna mín," sagði hann, Ísleifur strandaði við Ingólfshöfða í nótt allt er í lagi með áhöfnina allavega eins og er.
Svo mikla trú hafði ég á að ekkert kæmi fyrir hann Adda minn að ég gat sagt án þess að hugsa, Hann Addi bjargar því. Sem betur fór varð ekki stórslys í þetta skiptið.
Trúin á okkur sjálf og samfélagið.
En við sem eigum ástvini okkar á sjó vitum hvað sjórinn getur gefið og hvað hann getur tekið. Það er okkar tilvera . Höfum trú og framfylgjum henni. Það hefur hjálpar mér og það hjálpar þér líka. Það opnast ávallt aðrir gluggar þegar hinir lokast.
Óska ykkur alls hins besta og eigið gleðilega sjómannahelgi. Hanna Birna. (Grein sem birtist í Gullkistunni sjómannbl. F.F.<)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.